fbpx
is
Menu

Notkun spjaldtölva

23. March 2020

Notkun spjaldtölva

Hér á eftir er fjallað um gagnleg smáforrit (öpp) sem nýtast við upptökur á dæmareikningi og hvernig er best að geyma myndskeiðin þannig að nemendur hafi aðgang að þeim. Þessi umfjöllun ætti að geta nýst í fjölmörgum greinum þar sem dæmareikningur er fyrirferðarmikill, eins og í stærðfræði, raungreinum, rafmagnsfræði og vélfræði en nýtingarmöguleikarnir gætu leynst miklu víðar. Í slíkum greinum er yfirleitt nauðsynlegt að kennari fari í gegnum helstu dæmi svo nemendur eigi raunhæfa möguleika á að geta reiknað dæmi sjálfir.

 

Dæmi úr STÆR2AH

Þetta myndskeið var tekið upp í forritinu Explain Everything á Ipad-spjaldtölvu og með Apple penna. Hægt er að nota hvaða penna sem er ef hann virkar á snertiskjá á annað borð.

 

Helstu forrit (öpp) til að taka upp dæmareikning

Hér eru nokkur forrit sem henta til að taka upp handskrifuð dæmi eins og hér á undan.

 

Explain Everything

Explain Everything er ókeypis ef ekki verið að vinna með meira en þrjú verkefni í einu þannig að kennarar geta auðveldlega prófað hvort þetta hentar þeim. Kennarar geta síðan keypt ótakmarkaða útgáfu á $25 fyrir árið.
Forritið býður upp á nokkuð fullkomna möguleika á því að bæta myndum, myndskeiðum og öðrum skjölum inn í glærur ef áhugi er á því að búa til lengri fyrirlestra eða kynningarmyndbönd.
Það er líka möguleiki í forritinu að hleypa gestum inn að fylgjast með dæmareikningum með spjalli og kannski vilja einhverjir prófa þann möguleika.

 

Doceri

Doceri er ókeypis ef það er notað eingöngu til að búa til myndskeið og hlaða þeim upp á vefinn. Það þarf reyndar að borga 7 dollara til að losna við vatnsmerki í horninu á hverri glæru en vatnsmerkið er ekki mjög truflandi. Doceri býður upp á fleiri eiginleika en það þarf að borga fyrir þá

Educreations

Educreations er mjög einfalt í notkun og hefur þann kost að ekki þarf að hugsa um að hlaða upp myndskeiðum á vefinn, frekar en maður vill. Í staðinn eru myndskeiðin geymd á síðu hjá framleiðanda forritsins. Þú ferð svo inn á þessa vefsíðu og nærð í hlekk inn á myndskeiðið þitt. Þessi lausn gæti hentað þeim sem ætla sér ekki stóra hluti í þessum efnum og eru að hugsa um einfaldleikann fyrst og fremst. Þetta forrit virkar þó aðeins á Ipad og Iphone.